Þessi kjúklingur er unaðslega góður! Mr. Handsome fannst
hann svo góður að þegar allur kjúklingurinn var búinn tók hann brauð og sleikti
upp sósuna! Hann gaf þessum rétt 5 stjörnur. Ekta föstudagsmatur ef maður vill
gera smá vel við sig. Ég bar réttinn fram með hrísgrjónum og fersku salati. Svo
má fá sér eina ískalda kók með því....eða bara hvítvín eða það sem ykkur langar
til.....ef það er föstudagur :)
Innihald
8 stk úrbeinuð
kjúklingalæri
5 msk smjör
1 hvítlaukur
1 1/2 dl vatn
1 stk kjúklingateningur
1 1/2 dl rjómi
10 stk sólþurrkaðir
tómatar
80 gr rifinn parmesan
ostur
1/4 tsk oregano
1/4 tsk basilíka
1/4 tsk rauður pipar
(red pepper flakes)
nokkur blöð af ferskri
basilíku
salt og pipar
Aðferð
Setjið 3 msk af
smjöri á pönnu, kryddið kjúklingalærin með salti og pipar og steikið við háan
hita í rúmlega 2 mínútur á hvorri hlið. Lækkið hitann og eldið kjúklinginn í
gegn og takið hann svo af pönnunni. Setjið restina af smjörinu á pönnuna, 2
msk, ásamt hvítlauknum (ég nota hvítlaukspressu eða sker hann smátt niður)
steikið hvítlaukinn örlítið en passið að láta hann ekki brenna. Bætið saman við
vatni, kjúklingakrafti, rjóma, sólþurrkuðum tómötum, parmesan osti og öllu
kryddi saman við og hrærið þar til sósan hefur náð að þykkna örlítið. Þegar
sósan hefur fengið að malla á pönnunni í rúmlega 10-15 mínútur setji þið
kjúklinginn ofan í sósuna ásamt ferskri basilíku og látið malla í aðrar 5 mínútur. Saltið og piprið að vild.
Fyrir ykkur sem eruð hrifin af sterkum mat þá er um að gera að bæta örlítið af
rauðum pipar saman við. Ég mæli með að gera réttinn ekki of sterkan ef þið eruð
með börn, börnin mín kvörtuðu örlítið undan því hversu sterkur hann var þannig
ég tók frá smá kjúkling og sósu fyrir þau og kryddaði svo meira fyrir okkur.
Ég sauð hrísgrjón með
þessum rétti og gerði ferskt salat. Einnig bætti ég við auka parmesan osti
þegar kjúklingurinn var kominn á diskinn því mér finnst hann svo hrikalega
góður.
Njótið
Thelma