expr:class='"loading" + data:blog.mobileClass'>

Saturday, March 30, 2013

Karamellu Brownie to die for!


Í gær vantaði mig fljótlegan eftirrétt en samt langaði mig í eitthvað alveg einstaklega gott líka. Mig langaði í súkkulaði en samt eitthvað með karamellu líka svo ég ákvað að skella þessu bæði saman í eitt. Þar sem ég átti slatta af Pipp með karamellu sem er alveg einstaklega gott því karamellan í því er svo mjúk og góð ákvað ég að nota slatta af því ásamt dökku súkkulaði og OMG útkoman varð fullkomin þó svo ég segi sjálf frá. 

Þessi kaka er mjög einföld og fljótleg, ég var búin að búa til deigið áður en við borðuðum og skellti því svo í form strax eftir matinn og bakaði í 25 mín. Ég setti svo smá Pipp ofan á heita kökuna sem bráðnaði ofan á og mér fannst það toppa hana því þetta var eins og súkkulaði/karamellu sósa sem fór svo vel með ísnum sem við fengum okkur með. 

Snilldar eftirréttur sem er einfaldur og fljótlegur!





Karamellu Brownie
(Breytt uppskrift upp úr bókinni Súkkulaðiást)

Innihald

300 g. konsum 70% súkkulaði
3 egg
2 tsk. vanilludropar
300 g. púðursykur
90 g. hveiti
2 tsk. lyftiduft
1/4 tsk salt (1 tsk. fyrir þá sem vilja fá meira saltbragð)
200 g. smjör 
300 g. Pipp karamellu súkkulaði

Aðferð

Hitið ofninn í 170 gráðu hita.
Þreytið egg, vanilludropa og púðursykur saman þangað til blandan verður ljós og létt. Blandið öllum þurrefnunum saman og sigtið ofan í blönduna og hrærið rólega saman við. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman í pott yfir lágum hita og blandið saman við, hrærið varlega þar til allt hefur blandast vel saman. Skerið 200 g. karamellu Pipp í grófa bita og blandið saman við deigið og hrærið léttilega. Smyrjið eldfast bót og setjið deigið í. Bakið í 25 mín. Þegar kakan er tekin út skerið þá 100 g. af karamellu pipp í grófa bita og setjið strax ofan á kökuna svo það nái að bráðna ofan á.  Gott er svo að láta kökuna kólna aðeins áður en hún er skorin. Kakan á að vera blaut í sér þegar hún er tekin úr ofninum. Gott með t.d. ís eða rjóma!






Kakan var fljót að fara ofan í svanga mallakúta!



Verði ykkur að góðu

Thelma

No comments:

Post a Comment