expr:class='"loading" + data:blog.mobileClass'>

Wednesday, February 6, 2013

Valentínusardagurinn 14. febrúar

Dagur elskenda er á næsta leiti, 14. febrúar, eða Valentínusardagurinn eins og hann er kallaður. Valentínusardagurinn er amerískur siður en við Íslendingar höfum verið að taka upp þá hefð að fagna honum, okkur konunum til mikillar ánægju, þar sem konudagurinn er svo rétt á eftir og því má segja að febrúarmánuður sé algjör dekurmánuður okkar kvenna. Allavega er ég alsæl með þetta fyrir komulag og þetta gefur okkur enn eina ástæðuna til þess að gera eitthvað “sérstakt” saman og brjóta upp vikuna. Ekki veitir af í þessu skammdegi sem við búum við hér á landi sem mér finnst búið að hafa óvenjulega mikil áhrif á mig í þessum dimma janúarmánuði!


Hér ætla ég að deila með ykkur hvítsúkkulaði bollakökum með súkkulaðifyllingu og jarðarberjarjóma. Þetta er uppskrift sem allir ættu að geta gert en hún tekur þó smá tíma að gera. Þær slóu algjörlega í gegn heima hjá mér og sérstaklega ferski jarðarberjarjóminn ofan á og óvænta súkkulaðikremið innan í kökunni. Svo er bara eitthvað svo rómantískt við jarðaber, súkkulaði  og rjóma :)

Þessi uppskrift er líka alveg tilvanin fyrir bolludaginn fyrir þá sem vilja gera eitthvað öðruvísi, sama bragð en samt svo milljón sinnum betra!





Gott er að hafa góða aðstoðarmenn sem sjá um að sleikja afganginn af súkkulaðinu af sleifinni þess á milli sem þeir hjálpa til við að bæta við hráefnum og hræra!




Það þarf sko enga KitchenAid fyrir þessa uppskrift, svo einföld og fljótleg og rjóminn svo auðveldur að þeyta!



Bollakökur með hvítu súkkulaði

Byrjið á að lesa alla uppskriftina áður en þið byrjið, það er alltaf góð regla!
Stillið ofninn á 180 gráður og raðið 24 bollakökuformum á bökunarplötu
24 stk. litlar bollakökur (duni bollakökuformin)

110 gr. smjör við stofuhita
170 gr. sykur
2 egg
210 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
130 ml. mjólk
100 gr. bráðið hvítt súkkulaði
1 tsk. vanilludropar

1. Hrærið sykur og smjör vel saman þangað til blandan er orðin ljós og létt.
  1. Bætið saman við eggjum, einu í einu  og hrærið vel á milli. Hrærið í rúmar 2 mín. eftir hvert egg.
  2. Bræddu hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og bættu saman við.
  3. Blandaðu saman hveiti og lyftidufti og bættu saman við ásamt mjólkinni, smá og smá í einu og hrærið vel á milli. Bætið því næst vanilludropum saman við.
5. Setjið deigið í formin og passið að fylla þau ekki meira en 2/3. Bakið í 18 -20 mín.
6. Takið út og kælið alveg.


Súkkulaðifylling

2 eggjarauður
60 gr. flórsykur
100 gr. dökkt súkkulaði
30 gr. smjör
½ tsk vanilludropar

1.      Hrærið eggjarauður og flórsykur saman þangað til blandan verður orðin ljós og létt.
2.      Bræðið súkkulaðið og smjörið saman og blandið saman við, hrærið þangað til súkkulaðið hefur blandast vel saman við.
3.      Bætið við vanilludropum.


Súkkulaðifyllingin á að vera í þykkara lagi svo hægt sé að sprauta henni auðveldlega ofan í bollakökurnar. Hægt er að þykkja súkkulaðifyllinguna með því að bæta saman við flórsykri en þá þarf oft að setja örlítið kakó á móti, best er að smakka kremið áður en það er gert. Stundum er líka nóg að láta súkkulaðifyllinguna standa aðeins og þá þykknar hún.

Þegar bollakökurnar hafa verið kældar vel þá þarf að taka innan úr þeim, gott er að nota stóran sprautustút til þess að þrýsta ofan í bollakökuna og snúa honum þá ertu búin að taka nægilega mikið innan úr hverri köku. Þó er hægt að nota hvaða aðferð sem hentar hverjum og einum. Geymið það sem þið takið úr því ég loka svo gatinu með því þegar búið er að sprauta súkkulaðifyllingunni ofan í.
Setjið súkkulaðifyllinguna í sprautu eða sprautupoka og fyllið hverja bollaköku fyrir sig, lokið svo fyrir.

Sjá aðferð hér að neðan.




Jarðaberjarjómi

½  lítri rjómi þeyttur
4 msk. flórsykur
1 tsk. vanilludropar
6-7 msk. maukuð jarðaber (5-6 jarðaber)

Best er að þeyta rjómann þar til hann er næstum því alveg tilbúinn, þá bætið við flórsykrinum. Því næst bæti þið maukuðu jarðaberjunum og vanilludropunum saman við með sleif, hrærið þangað til jarðaberin hafa blandast vel saman og rjóminn hefur fengið fallega bleikan lit.

Setjið ca. 1 msk af jarðaberjarjóma á hverja köku. Flott er að skreyta með jarðaberjum, heilum dýfðum í súkkulaði, skornum niður eða eins og ykkur dettur í hug.

Geymið kökurnar inn í ísskáp þangað til þær eru bornar fram.




Minni einnig á að ég blogga fyrir Gott í Matinn og þar má finna fjöldan af uppskriftum frá mér :)

Verði ykkur að góðu

Thelma



No comments:

Post a Comment