expr:class='"loading" + data:blog.mobileClass'>

Tuesday, November 18, 2014

Frozen afmæli!






Dóttir mín varð 4 ára þann 19. júní síðastliðinn, á sjálfan kvenréttindadaginn og lýsir sá dagur henni vel! Hún er ákveðin og veit hvað hún vill..... já hún vissi sko að hún vildi hafa Frosinn afmæli með meiru!  Hún vildi bláa glitrandi köku, bollakökur og bráðinn snjó fyrir gestina.
Þar sem við stöndum í flutningum hafði ég lítinn tíma til að undirbúa afmælið en langaði auðvitað að gera það sérstakt með þessu skemmtilega þema sem við Mr. Handsome höfum verið heilaþvegin af síðustu mánuði, svo sem myndinni og allri þeirri tónlist sem henni tilheyra. Það er mjög cool að vera stór og myndarlegur maður í jakkafötum með “ viltu koma og gera snjókarl” á heilanum í vinnunni allan daginn, nei segi bara svona!
Ég sankaði að mér allskyns hugmyndum sem ég fann á netinu, gerði eina einföldustu köku sem ég hef gert fyrir afmæli, prentaði ýmislegt út, klippti og límdi og skellti í alvöru Frosinn afmæli á 2 dögum.

Mig langar að deila með ykkur þeim hugmyndum sem ég notaði fyrir afmælið og slógu í gegn meðal barnanna og það góða við þetta allt saman er að þetta er alls ekki flókið smiley

Matseðilinn okkar var:
Pylsur og hamborgarar
Bollakökur
Afmæliskaka
Popp
Vatnsmelónur
Ís
Bráðinn snjór
Aðrir drykkir fyrir fullorðna

Frosinn afmæliskaka


Frosen kaka
Þessi uppskrift er uppskrift af amerísku skúffukökunni hennar mömmu, hún er mjúk og góð og besta við hana er að hún klikkar aldrei!

Ég notaði tvö bökunarform sem voru rúmlega 20 cm að stærð og eitt sem er mjög lítið og setti efst á toppinn.

Innihald
4 egg
420 g sykur
320 g hveiti
3 msk dökkt kakó, kúfaðar
5 tsk lyftiduft
2 dl mjólk
120 brætt smjör

Aðferð
Hitið ofninn í 180 gráður, smyrjið og setjið smjörpappír í bökunarformin.
Þeytið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt, í u.þ.b. 5 mínútur. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman í skál og hrærið. Blandið hveitiblöndunni saman við ásamt mjólkinni og brædda smjörinu smá og smá í einu og hræra á milli. Passið ykkur að hræra ekki of lengi eftir að allt hefur náð að blandast vel saman svo kakan verði ekki seig. Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í rúmar 20 mínútur. Bökunartíminn fer að sjálfsögðu eftir því hversu stór formin ykkar eru. Kakan er tilbúin þegar tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar.

Vanillusmjörkrem
Ég notaði tvöfalda uppskrift af þessu kremi til að ná að smyrja vel á kökuna og skreyta aðeins.

250 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur
4 tsk vanilludropar
2-3 msk mjólk

Aðferð
Hrærið smjörið þar til það er orðið ljóst og létt, blandið flórsykrinum saman við smá og smá í einu og hrærið vel á milli. Bætið vanilludropum og mjólk saman við og hrærið þar til kremið er orðið mjúkt og slétt. Ef ykkur finnst kremið vera of þykkt þá geti þið bætt smá mjólk saman við.

Skreytingar á köku
Ég smurði kreminu á milli botnanna og utan um kökuna alla í heild sinni. Kremið var ekki fullkomlega slett að utan heldur smurði ég því bara gróflega utan um kökuna. Ég blés matarglimmeri á alla kökuna sem lét hana glansa svo fallega. Ég notaði 1M sprautustút og sprautaði rósir á efstu kökuna, setti silvurperlur og glimmer þar ofan á. Fyrir kökutopp notaði ég Frosinn fána sem ég fann á netinu, prentaði og klippti út og límdi hann á cakepopp spýtu og festi sykursnjókorn á kökuna. Þetta allt fæst í t.d. Hagkaup og Allt í köku. Stjörnuljós eru svo orðin algjör skilyrði fyrir afmæli hér á bæ og fæ ég þau í Partýbúðinni. Ótrúlega skemmtilegt að kveikja á þeim og þau geta gert flest allar kökur glitrandi fallegar!


Fáninn á kökuna.

Bláu diskana, skeiðarnar, bláa dúkinn og stjörnuljós fékk ég í Partýbúðinni og passaði rosalega vel við þemað. Ég átti svo gömul svona kínabox upp í skáp og límdi á þau Elsu og setti popp í þau, það vakti mikla lukku.


Allir krakkarnir fengu kórónur og Frosin verkefnabók sem ég útbjó handa þeim og mikið sem þau voru sæl með það! Kórónurnar slógu algjörlega í gegn og var fullt hús hér af hreindýrum, Önnu og Elsu prinsessum. Kórónurnar prentaði ég út á harðan pappír og klippti til og heftaði saman, tók enga stund! Verkefnabókin var svo full af þrautum og myndum úr Frosinn til að lita.

Hérna er brot úr verkefnabókinni

Hérna er kórónurnar ásamt borðanum sem ég klippti út og hengdi upp. Hver og einn gestur valdi sér svo kórónu.

Svo er sniðugt er að safna flöskum, annað hvort litlum glerflöskum eða t.d. eins og ég er með plastflöskum af trópí, ég reyndar fékk þær hjá Vífilfelli og hef notað þær oft! Prentaði og klippti út miða á hverja flösku þar sem stóð á “bráðinn snjór” sem var snilld því krakkarnir drukku bara vatn í afmælinu!! Ég límdi einnig á rörin til þess að gera þau skemmtilegri.


Límdi þetta á rörin ásamt mynd af Ólafi snjókarli.
Ólafur var flottur á rörin.


Hérna er svo hugmynd af skemmtilegum leik. Teiknið Ólaf snjókarl á stórt blað. Prentið út og klippið gulrótarnef eins og Ólafur er með. Hvert og eitt barn fær að spreyta sig í því að reyna að setja nefið á réttan stað með bundið fyrir augun. Sá sem nær að setja nefið næst þeim stað sem nefið á að vera vinnur! Gaman að hafa skemmtilega tónlist undir.

Þetta hljómar allt kannski eins og þetta hafi verið rosalega mikil vinna en það var það alls ekki. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með smá föndri og gaman er að leyfa afmælisbarninu að taka þátt í því. Hvaða barn elskar ekki að klippa út, líma og föndra?? Ég pantaði svo Frosinn  kjól á ebay fyrir afmælisbarnið sem var alsæl með dressið sitt.

Fyrir ykkur sem viljið fá eitthvað af þessu til þess að prenta út fyrir afmælið þá geti þið sent mér email og ég get sent allt það sem þið viljið á ykkur!! Svo ekki hika við að hafa samband.




Vona að þið getið nýtt ykkur þessar snilldar hugmyndir :)

Þangað til næst!
Thelma

No comments:

Post a Comment