expr:class='"loading" + data:blog.mobileClass'>

Wednesday, March 2, 2016

Himnesk Marengsterta með kanil, karamellu og pecanhnetum


Það er hefð hjá mér að þegar það eru afmæli hér á bæ að gera alltaf nokkrar tilraunir af nýjum kökum til að láta gestina smakka og að sjálfsögðu gefa kökunni einkunn. Þar sem Kristófer varð 7 ára núna á laugardaginn sl. skellti ég í nokkrar marengskökur og ætla ég að deila einni þeirra með ykkur hér. Þessi kaka fékk topp einkunn frá gestunum og var fyrsta kakan til að klárast alveg (held að mamma hafi svo sleikt diskinn í restina). Gestirnir sögðu að það að bíta í þessa köku væri eins og að komast til himnaríkis (hvað sem þeir vita svo sem um það). Annars gerði ég þrjár tertur og þær heppnuðust allar mjög vel, fyrir utan eina sem ég þurfti að gera aftur og breyta vegna tæknilegra örðuleika, já það er stundum erfitt að blanda allskonar saman við marengs og það heppnast ekki alltaf. 

Mæli með þessari köku við hvaða tækifæri sem er og þá kannski sérstaklega ef þið þurfið að fá vija ykkar framgengt!  



Ofnhiti: 140 gráður (með blæstri)      Bökunartími: 1 klst.

Innihald
6 eggjahvítur
300 g sykur (fínn sykur ekki grófur)
1 msk kanill
100 g pekanhnetur

Aðferð
Hitið ofninn í 140 gráður. Setjið smjörpappír á þrjár bökunarplötur og myndið þrjá jafnstóra hringi á hverja plötu. Ef þið viljið hafa tvo botna geri þið tvo stærri hringi á sitthvora plötuna. Mikilvægt er að hræra ekki í alla botnana í einu ef þið getið ekki sett þá alla inn í ofn strax þar sem marengsinn má ekki standa of lengi. Hver botn er 2 eggjahvítur, 100 g sykur og ca. 1 tsk. kanill.

Hrærið eggjahvítur þar til þær verða stífar. Blandið sykrinum rólega saman við, smátt og smátt í einu og hrærið á fullum hraða þar til marengsinn verður sléttur og glansandi. Bætið kanil saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skiptið marengsnum jafnt á milli botnanna og myndið þrjá jafna hringi. Grófsaxið pekanhnetur og setjið ofan á hvern botn fyrir sig. Bakið í 1 klst. eða þar til botnarnir eru þurrir viðkomu. Leyfið botnunum að jafna sig og kólna alveg áður en þið setjið rjómann á milli. Gott er að setja rjómann á milli deginum áður en kakan er borin fram svo að marengsinn nái að mýkjast aðeins.

Fylling 
500 ml rjómi
4 msk marscapone ostur
1 tsk sykur
3 tsk kanill

Aðferð
Þeytið rjómann þar til hann stendur, passið ykkur að þeyta hann alls ekki of mikið. Setjið marscapone ostinn í skál og hrærið hann vel, blandið honum saman við rjómann ásamt sykri og kanil með sleif. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið rjómablöndunna á milli botnanna og staflið þeim ofan á hvorn annan.

Toppur
120 g Dumle karamellur (1 poki)
3-4 msk rjómi

Aðferð
Setjið rjómann í pott yfir lágum hita og látið hitna en ekki sjóða. Setjið karamellurnar saman við og hrærið þar til karamellurnar hafa bandast vel saman við rjómann og bráðnað alveg. Slettið karamellunni ofan á toppinn á kökunni.

Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram.

Það er vel hægt að gera marengsbotna nokkrum dögum áður en þú setur á þá sem getur flýtt ansi mikið fyrir manni.



Njótið

Thelma

1 comment: